Ferill 978. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1526  —  978. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026.


Frá menningar- og viðskiptaráðherra.



    Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt eftirfarandi aðgerðaáætlun á sviðum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026 þar sem lögð verði áhersla á markvissa nýtingu á aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs til að auka lífsgæði með verðmætasköpun, nýsköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild að leiðarljósi.

AÐGERÐAÁÆTLUN Í MÁLEFNUM HÖNNUNAR OG ARKITEKTÚRS FYRIR ÁRIN 2023–2026


A. Verðmætasköpun.
    Stjórnvöld leitist við að skjóta fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf með vaxandi áherslu á greinar sem byggja á hugviti, hátækni, sköpun og sjálfbærum lausnum. Hönnun sem aðferðafræði verði lykill að því að nýta tækifærin sem felast í örum tæknibreytingum og stuðla að aukinni sjálfbærni. Leitast verði við að hafa víðtæk jákvæð áhrif á þróun samfélagsins og lífsgæði til framtíðar með því að virkja fagþekkingu hönnuða, arkitekta og aðferðafræði hönnunar.

1. Efling Hönnunarsjóðs.
     Markmið: Mótuð verði framtíðarsýn Hönnunarsjóðs með hliðsjón af stefnumótun í málefnum hönnunar og arkitektúrs, þar sem hlutverk sjóðsins verði skýrt til samræmis við ráðgerða varanlega hækkun framlaga.
     Framkvæmd: Samantekt verði unnin um starfsemi, hreyfiafl og áhrif sjóðsins sl. 10 ár og könnun gerð um áhrif sjóðsins meðal styrkþega. Framtíðarsýn verði síðan mótuð á grunni samantektar.
     Ábyrgð: Menningar og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Stjórn Hönnunarsjóðs og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
     Tímabil: 2023–2026.

2. Skilgreining mælikvarða og miðlun virðisauka hönnunar.
     Markmið: Skilgreindir verði samfélagslegir og hagrænir mælikvarðar sem miðli virðisauka samfélagsins vegna hönnunar og arkitektúrs.
     Framkvæmd: Fyrirliggjandi tölfræðigögn verði rýnd og mótaðir 3–5 lykilmælikvarðar sem nýtist í innlendum og erlendum samanburði og markmiðasetningu. Gagnasöfnun og miðlun verði með reglubundnum hætti og árleg samantekt birt.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Hagstofan, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, rannsakendur á sviðum skapandi greina, Samtök skapandi greina.
     Tímabil: 2023–2024.

3. Virkjun hönnunardrifinnar nýsköpunar.
     Markmið: Stuðlað verði að auknum skilningi á áhrifamætti og gagnsemi hönnunardrifinnar nýsköpunar og aðgengi slíkra verkefna að stuðningi bætt.
     Framkvæmd: Greining verði gerð á getu samkeppnissjóða og núverandi endurgreiðslukerfa til stuðnings við hönnunardrifin nýsköpunar- og þróunarverkefni, og mótaðar tillögur til úrbóta.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Rannís, Samtök iðnaðarins, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
     Tímabil: 2023–2026.

4. Lög um málefni hönnunar og arkitektúrs.
     Markmið: Markaður verði heildarrammi fyrir málefnasvið hönnunar og arkitektúrs þar sem aðkoma stjórnvalda verði skilgreind og kveðið á um hvernig búa megi greinunum hagstæð skilyrði, líkt og öðrum listgreinum. Lögin taki til þeirrar starfsemi sem ríkið stendur fyrir eða styrkir.
     Framkvæmd: Að undangengnu hefðbundnu mati á þörf fyrir lagasetningu og greiningu á lagaumhverfi annars staðar á Norðurlöndum verði ráðist í gerð frumvarps til heildarlaga um málefni hönnunar og arkitektúrs. Virkt samráð verði haft við haghafa meðan á smíði frumvarpsins stendur um hvernig ná megi þeim markmiðum sem stefnt er að. Frumvarpið fari síðan í opið samráðsferli og verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2025.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Tímabil: 2023–2025.

5. Aukning hlutar hönnuða í úthlutun listamannalauna.
     Markmið: Fleiri hönnuðir fái úthlutað starfslaunum listamanna.
     Framkvæmd: Mannmánuðum sem til úthlutunar eru úr launasjóði hönnuða verði fjölgað úr 50 í 100 með breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009, og reglugerð um listamannalaun, nr. 834/2009.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Bandalag íslenskra listamanna, Rannís.
     Tímabil: 2025–2026.

B. Hönnun sem breytingarafl.
    Hagnýting hönnunar verði vaxandi þáttur í þróun og nýsköpun fyrirtækja og stofnana og hönnunarhugsun nýtt í auknum mæli til úrlausnar á fjölbreyttum verkefnum og flóknum umhverfis- og félagslegum áskorunum.

6. Samfélagsleg nýting hönnunardrifinnar nýsköpunar.
     Markmið: Að efla ráðgefandi hlutverk Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs á sviðum hönnunardrifinnar nýsköpunar til að undirbyggja vöxt slíkrar atvinnustarfsemi.
     Framkvæmd: Miðstöð hönnunar og arkitektúrs verði falið að leiða sértæk verkefni á sviðum hönnunardrifinnar nýsköpunar, líkt og systurstofnanir miðstöðvarinnar annars staðar á Norðurlöndum. Skilgreind verði tvö tilraunaverkefni sem komi til framkvæmda á árunum 2025–2026.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Tímabil: 2025–2026.

7. Aukið vægi hönnunar í útboðum og samkeppnum.
     Markmið: Vægi hönnunar, gæða, endingar, umhverfis og notenda verði aukið í útboðum, samkeppnum og opinberum innkaupum.
     Framkvæmd: Samstarf verði aukið milli Ríkiskaupa, Framkvæmdasýslu ríkisins og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs um þróun útboðs- og samkeppnisgagna þar sem leitast verði við að auka gæði, traust, sanngirni, gagnsæi og fagmennsku með því að samræma upplýsingar, einfalda verklag og auka skilvirkni.
     Ábyrgð: Ríkiskaup.
     Samstarfsaðilar: Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Framkvæmdasýsla ríkisins, fjármála- og efnahagsráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, Samtök iðnaðarins.
     Tímabil: 2023–2026.

C. Sjálfbærir innviðir.
    Hönnunarhugsun og sérþekking hönnuða verði nýtt við þróun, viðhald og uppbyggingu innviða, þ.m.t. tæknilegra og félagslegra, til að stuðla að uppbyggingu sjálfbærra samfélaga. Hugað verði að heildrænni stefnumótun um hönnun innviða og mannvirkja með aukna sjálfbærni, gæði og bætta lýðheilsu að leiðarljósi og byggt upp öflugt þverfaglegt rannsóknarumhverfi fyrir fagfólk í arkitektúr og hönnunar- og byggingagreinum.

8. Heildstæð stefnumótun í mannvirkjagerð.
     Markmið: Unnið verði að heildstæðari stefnumótun í mannvirkjagerð og innviðauppbyggingu þvert á stjórnkerfið með aukin gæði, sjálfbærni og öryggi að leiðarljósi.
     Framkvæmd: Í tengslum við mótun húsnæðisstefnu verði jafnframt unnið að stefnumótun um mannvirkjagerð þar sem m.a. verði fjallað um hagræna, umhverfis-, tækni-, menningar- og félagslega þætti mannvirkjagerðar. Verkefnið verði unnið í breiðu samráði ráðuneyta, stofnana og hagaðila. Samhliða verði hugað að virkri samþættingu áherslna í hönnunarstefnu við aðra stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Menningar- og viðskiptaráðuneyti, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, mennta- og barnamálaráðuneyti, Skipulagsstofnun, Samtök iðnaðarins, Arkitektafélag Íslands, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
     Tímabil: 2023–2026.

9. Miðlægur rannsóknavettvangur fyrir innviði.
     Markmið: Unnið verði að því að skilgreint hlutfall fjármagns til opinberra framkvæmda fari til rannsókna og nýsköpunar í mannvirkjagerð, sem undirbyggi starfsemi óháðs rannsóknavettvangs fyrir hið byggða umhverfi.
     Framkvæmd: Fram fari mat á starfsemi mannvirkjarannsóknasjóðsins Asks og þarfagreining fyrir auknar rannsóknir á sviðum húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmála með hliðsjón af húsnæðisstefnu, landsskipulagsstefnu og loftslagsmarkmiðum Íslands. Mótaðar verði tillögur um framtíðarskipan bygginga- og innviðarannsókna og sviðsmyndir kostnaðarmetnar.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, Samtök iðnaðarins, Skipulagsstofnun, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
     Tímabil: 2023–2024.

D. Menntun framsækinna kynslóða.
    Til að efla verðmætasköpun á Íslandi með hönnun og arkitektúr verði meðvitund um fagþekkingu hönnuða og arkitekta aukin og leitast við að tryggja að menntun þeirra og hæfni mæti áskorunum samfélagsins hverju sinni. Námsframboð, m.a. á sviðum símenntunar, sæti stöðugri endurskoðun og taki mið af örri tækniþróun og eðli hönnunartengdra faga. Aukið verði úrval námsmöguleika á sviðum nýrri hönnunargreina þar sem vaxandi eftirspurn er eftir sérþekkingu, svo sem á sviði stafrænnar hönnunar, þjónustu- og upplifunarhönnunar og viðmótshönnunar. Unnið verði að því að auka þverfaglega nálgun í menntun, rannsóknum og samstarfi.

10. Aukið framboð náms og endurmenntunar í hönnunargreinum.
     Markmið: Að samvinna og samtal sé aukið milli menntastofnana, og milli þeirra og atvinnulífsins um þróun menntunar í hönnunargreinum.
     Framkvæmd: Haldnir verði reglulegir fundir og málþing um fjölbreytt málefni menntunar í hönnunargreinum þar sem hagaðilar komi saman til samtals um þróun, nýjar námsleiðir og eflingu menntunar og þverfaglegra áherslna á sviði hönnunar og arkitektúrs.
     Ábyrgð: Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
     Samstarfsaðilar: Listaháskóli Íslands, menntastofnanir og fyrirtæki sem kenna hönnunarfög, Samtök atvinnulífsins, stéttarfélög fagfólks í hönnunargreinum, kennarar í list- og verkgreinum, menningar- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
     Tímabil: 2023–2026.

11. Verndun, miðlun og rannsóknir á menningararfi íslensks arkitektúrs.
     Markmið: Valkostir fyrir verndun, miðlun og rannsóknir á menningararfi íslensks arkitektúrs verði metnir með hliðsjón af stefnunni Menningararfurinn – stefnu um varðveislu og aðgengi.
     Framkvæmd: Skipaður verði faglegur starfshópur sem falið verði að gera þarfagreiningu og forgangsraða verkefnum sem tengjast verndun, miðlun og rannsóknum á menningararfi íslensks arkitektúrs. Þarfagreining fari síðan í opið samráðsferli.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Minjastofnun Íslands, Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóli Íslands, Arkitektafélag Íslands.
     Tímabil: 2023–2024.

12. Fræðsla um höfundarétt og hönnunarvernd.
     Markmið: Fræðsla og meðvitund um höfundarétt og hönnunarvernd verði aukin, þar sem sérstaklega verði tekið mið af sérstöðu og fjölbreyttu starfsumhverfi þeirra sem starfa að sjónlistum.
     Framkvæmd: Fræðsla um höfundarétt, hönnunarvernd og samningamál verði aukin meðal fagfólks í hönnunargreinum. Stuðlað verði að aukinni fræðslu um höfundarétt meðal almennings og hjá fyrirtækjum.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Myndstef, Hugverkastofa, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Listaháskóli Íslands, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, Ríkiskaup, Samtök iðnaðarins.
     Tímabil: 2023–2026.

13. Safnafræðsla í Hönnunarsafni Íslands.
     Markmið: Að auka fræðslu og miðlun til ungs fólks með áherslu á sköpun, verkþekkingu, menningararf og framtíðarmöguleika íslenskrar hönnunar og arkitektúrs.
     Framkvæmd: Fjölbreyttum miðlunarleiðum verði beitt til þess að auka aðgengi grunnskólanemenda á aldrinum 10–14 ára að Hönnunarsafni Íslands, m.a. með heimsóknum, leiðsögn, vinnustofum og kveikjum.
     Ábyrgð: Hönnunarsafn Íslands.
     Samstarfsaðilar: Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, grunn- og framhaldsskólar, Listaháskóli Íslands.
     Tímabil: 2023–2025.

E. Kynning á íslenskri hönnun og arkitektúr.
    Byggt verði á grunni þess sem áunnist hefur við að vekja athygli og áhuga á íslenskri hönnun og arkitektúr og unnið að því að auka skilning hjá fyrirtækjum og stofnunum á jákvæðum áhrifum hönnunarhugsunar á verkefni, þjónustu og skipulag. Til þess að auka virðingu og sýnileika íslenskrar hönnunar verði lögð áhersla á íslenska hönnun og birtingarmyndir hennar á sem flestum sviðum.

14. Þátttaka í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr.
     Markmið: Að Ísland taki þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr og að þátttaka landsins veki eftirtekt og athygli á íslenskri hönnun og ólíkum birtingarmyndum hennar.
     Framkvæmd: Skipuð verði stjórn sem skipuleggi þátttöku og móti stefnu um rannsóknir, viðfangsefni og miðlun, geri tillögu að tilnefningu þátttakenda og ráði sýningarstjóra.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneytið.
     Samstarfsaðilar: Utanríkisráðuneyti, Íslandsstofa, Listaháskóli Íslands, Arkitektafélag Íslands, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Myndlistarmiðstöð, Samark.
     Tímabil: 2023–2026.

Greinargerð.

    Stefnumótun í málefnum hönnunar og arkitektúrs byggist á eldri stefnumótun sem fram fór árin 2011–2013 og stefnu sem í gildi var árin 2014–2018, drögum að nýrri hönnunarstefnu sem kynnt var árið 2018 og umsögnum sem um þau bárust í samráðsgátt stjórnvalda, niðurstöðum stefnumóts Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs sem fram fór í júní 2021 og umræðum og forgangsröðun rýnihópafundar sem boðað var til í byrjun júní 2022. Drög að stefnunni voru kynnt í samráðsgátt sumarið 2022, mál nr. 132/2022. Þá var boðað til vinnufundar um verkefnið 31. maí 2022 þar sem fjölbreyttur hópur hagsmuna- og fagaðila úr hönnunargreinum, menntakerfi, félagasamtökum og stjórnkerfi kom saman til að rýna áherslusvið, móta tillögur að aðgerðum og forgangsraða þeim og skilgreina hindranir.
    Málefni hönnunar og arkitektúrs falla í fjárlögum undir málefnasvið 7 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 segir í framtíðarsýn málefnasviðsins að lykillinn að bættum lífsgæðum og fleiri tækifærum sé að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar; besta leiðin til þess að draga úr hagsveiflum sé að byggja efnahagslífið í vaxandi mæli á auðlindum sem hvorki séu takmarkaðar eða mjög háðar utanaðkomandi aðstæðum.
    Meginmarkmið stjórnvalda á sviði menningar er að jafna og bæta tækifæri til nýsköpunar og atvinnusköpunar í menningarstarfi, listum og skapandi greinum. Meginmarkmið stjórnvalda á sviði nýsköpunar er að hér þrífist alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi rannsókna og nýsköpunar þar sem áhersla er lögð á gæði, alþjóðlegt samstarf og árangur, sem og skilvirkni og gagnsæi í opinberu stuðningskerfi.
    Hluti fjárveitinga á málefnasviði 7 er á ábyrgð menningar- og viðskiptaráðuneytis en þrjú önnur ráðuneyti bera ábyrgð á starfsemi á sviðinu, forsætisráðherra ber ábyrgð á starfsemi Vísinda- og tækniráðs. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ber ábyrgð á vísindum, nýsköpun og hugverkaiðnaði. Matvælaráðherra ber ábyrgð á málefnum Matvælasjóðs.
    Stefnumótun í málefnum hönnunar og arkitektúrs heyrir undir menningarstefnu ráðuneytisins og tekur mið af innleiðingu Íslands á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Unnið var að stefnunni og aðgerðum hennar með hliðsjón af ýmsum öðrum stefnuskjölum og áætlunum stjórnvalda, þar með talið Menningarsókn – aðgerðaáætlun um listir og menningu, Nýsköpunarlandinu – stefnu stjórnvalda í nýsköpun, Vísinda- og tæknistefnu 2020–2023 og menntastefnu fyrir árin 2021–2030.
    Stefnumótun og útfærsla aðgerða var unnin í samvinnu við hagsmuna- og fagaðila, m.a. í gegnum Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Miðstöðinni var komið á fót að frumkvæði stjórnvalda árið 2008 til þess að efla íslenska hönnun og arkitektúr sem listgreinar og grundvöll þeirra til atvinnusköpunar. Miðstöðin, sem er rekin sem eignarhaldsfélag, er beintengd grasrót og atvinnulífi hönnunargreina en að henni standa níu fagfélög með alls 1.200 félaga sem eiga hana og reka með stuðningi stjórnvalda gegnum menningar- og viðskiptaráðuneytið. Hlutverk miðstöðvarinnar hefur vaxið í takt við vöxt hönnunargreina undanfarinn áratug.

Framtíðarsýn, meginmarkmið og lykilviðfangsefni.
    Aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026 byggist á stefnu í málefnum hönnunar og arkitektúrs sem kynnt var í febrúar sl. Framtíðarsýn stefnunnar er að aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs sé nýtt markvisst til að auka lífsgæði á Íslandi með áherslu á verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild. Með því að nýta aðferðir hönnunar muni stjórnvöld og atvinnulíf auka gæði, bæta heilsu og mannlíf, skapa áhugaverð störf og hraða verðmætasköpun á ólíkum sviðum. Leiðir að meginmarkmiðum stefnunnar um aukin lífsgæði og verðmætasköpun tengjast eftirfarandi atriðum:
     *      verðmætasköpun sem byggist á hönnun og arkitektúr,
     *      hagnýtingu hönnunar sem breytingaafls,
     *      menntun framsækinna kynslóða,
     *      sjálfbærri innviðauppbyggingu,
     *      kynningu á íslenskri hönnun og arkitektúr.
    Umhverfi hönnunar og arkitektúrs hefur tekið örum breytingum síðustu ár. Skilningur almennings og atvinnulífs hefur breyst og dýpkað, aðferðafræði hönnunar hefur þróast, sérhæfing aukist og tækifærum til menntunar fjölgað. Næmni og meðvitund notenda hefur aukist og sífellt fleiri þekkja og kunna að meta hvaða áhrif góð hönnun getur haft á líf okkar.
    Hönnun sem aðferðafræði er ákveðinn lykill að því að nýta tækifærin sem felast í örum tæknibreytingum og stuðla að aukinni sjálfbærni. Með því að virkja fagþekkingu hönnuða og aðferðafræði hönnunar má hafa víðtæk jákvæð áhrif á þróun samfélagsins og framtíðarlífsgæði. Aðferðafræði hönnunar nýtist með beinum og óbeinum hætti við framfylgd velsældaráherslna stjórnvalda og hefur sterk tengsl við mörg af undirmarkmiðum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
    Hönnunarhugsun er aðferðafræði sem hönnuðir beita til þess að greina vandamál og leita lausna. Aðferðin byggist annars vegar á þverfaglegri þekkingu á viðkomandi áskorun og hins vegar á vinnuferli þar sem þarfir notenda, möguleikar tækni og kröfur um velgengni í viðskiptum eru samþættar. Hönnunarhugsun nýtist á breiðum grunni, til að mynda í vöru- og þjónustuhönnun en einnig í endurskoðun ferla og skipulagsheilda. Hönnunarhugsun nýtir sjónrænar aðferðir, markvissa endurgjöf og lærdóm af tilraunum.
    Umhverfislegar og félagslegar áskoranir samtímans kalla á breytt hugarfar og lifnaðarhætti og í sumum tilfellum víðtækar kerfisbreytingar. Í kortlagningu Vísinda- og tækniráðs á brýnustu áskorunum sem íslenskt samfélag mun standa frammi fyrir á næstu áratugum kom fram að grundvallarþættir þeirra væru örar tæknibreytingar, breytingar á samsetningu þjóðarinnar og menntun. Helstu skilgreindar samfélagslegu áskoranir voru umhverfismál og sjálfbærni, heilsa og velferð, og líf og störf í heimi breytinga.
    Þróun sjálfbærra borga og bæja verður æ mikilvægari en þéttbýlismyndun hér á landi hefur verið hröð. Það felur í sér ýmsar áskoranir að viðhalda og þróa sjálfbær samfélög án þess að skaða umhverfi og auðlindir. Sjálfbær borgarþróun byggist á heildarsýn og felur í sér aðgerðir og samþættar lausnir fyrir skipulag og uppbyggingu innviða og mannvirkja sem tryggja aukna sjálfbærni og viðunandi búsetuaðstæður. Meðal helstu áskorana stjórnvalda er að vinna að félags-, umhverfis- og efnahagsþróun. Innviðir takmarkast ekki við manngert umhverfi og geta verið af ýmsum toga, m.a. tæknilegir og félagslegir.

Um einstakar aðgerðir.

1. Efling Hönnunarsjóðs.
    Hlutverk Hönnunarsjóðs er að efla þekkingu og atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi og ráðgjöf. Sjóðurinn var stofnaður árið 2013 og hefur fest sig í sessi sem mikilvægt hreyfiafl nýsköpunar í hönnunargreinum. Sjóðurinn veitir þróunar- og rannsóknastyrki, verkefnastyrki, markaðs- og kynningastyrki og ferðastyrki. Móta þarf framtíðarsýn fyrir sjóðinn með hliðsjón af nýrri stefnumótun og áformum um hækkun framlaga. Ráðgert er að hún verði unnin á grundvelli samantektar um starfsemi og áhrif sjóðsins sl. 10 ár og þar m.a. horft til aðgengis- og jafnréttissjónarmiða. Aðgerðin styður Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 8 um að stuðlað skuli að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla.

2. Skilgreining mælikvarða og miðlun virðisauka hönnunar.
    Stutt er síðan farið var að huga að heildarnálgun á tölfræðileg gögn sem tengjast skapandi greinum og hefur ýmislegt áunnist í því samhengi, m.a. með birtingu menningarvísa Hagstofunnar, mælikvarða um menningu. Menningarvísarnir eru í þróun og hafa nú alls fimm verið birtir, þ.e. fjöldi starfandi í menningargreinum, launasumma, fjöldi rekstraraðila, rekstrartekjur og þjónustuviðskipti við útlönd.
    Í menningarvísunum er miðað við hliðarflokkun Hagstofu Íslands á menningargreinunum en hliðarflokkunin byggist í grunninn á skilgreiningu Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á tíu atvinnugreinum menningar, en ein þeirra er hönnun og arkitektúr. Í því skyni að þróa vísana áfram og greina áreiðanleika þeirra er lagt upp með að fara yfir fyrirliggjandi gögn sen tengjast hönnun og arkitektúr og leita leiða til þess að ná betur utan um framlag hönnunargreina til atvinnu- og verðmætasköpunar með skilgreiningu mælikvarða og miðlun upplýsinga um virðisauka af hagnýtingu hönnunar í mismunandi atvinnugreinum. Aðgerðin styður Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 8 um að stuðlað skuli að viðvarandi sjálfbærum hagvexti, og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla, og samþættingu þess við önnur markmið.

3. Virkjun hönnunardrifinnar nýsköpunar.
    Nýsköpun er ekki aðeins grundvöllur efnahagslegrar velgengni heldur lykillinn að úrlausnum á stærstu viðfangsefnum komandi áratuga, eins og fram kemur í stefnu stjórnvalda, Nýsköpunarlandinu, frá 2019. Fram kemur í Klasastefnu fyrir Ísland frá 2021 að það sé hlutverk stjórnvalda að móta stefnu um vistkerfi nýsköpunar, þ.e. það umhverfi sem þarf að vera til staðar svo að virðisaukandi nýsköpun geti þrifist. Hugmyndin um vistkerfi nýsköpunar endurspeglar að nýsköpun á sér í síauknum mæli stað í samstarfi og samspili fyrirtækja, viðskiptavina, birgja og þekkingarsamfélaga en þar getur aðferðafræði hönnunar verið mikilvæg brú milli ólíkra hagsmuna. Almennt tengja margir nýsköpun fyrst og fremst við hátækni og verkfræðilegar lausnir en nýsköpun getur verið að ýmsum toga, til að mynda hönnunardrifin þegar aðferðafræði hönnunar er beitt til þess að greina vandamál og skapa nýjar lausnir. Hafin er vinna við greiningu og endurskoðun sjóðakerfis rannsókna og nýsköpunar hér á landi á vettvangi háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis.

4. Lög um málefni hönnunar og arkitektúrs.
    Aðgerðin miðar að því að unnin verði rammalöggjöf fyrir málefnasvið hönnunar og arkitektúrs þar sem aðkoma stjórnvalda verði skilgreind og kveðið á um hvernig búa megi greinunum hagstæð skilyrði, líkt og öðrum listgreinum. Slík rammalöggjöf hefur m.a. verið unnin fyrir málefni sviðslista og tónlistar á undanförnum árum. Málefni hönnunar og arkitektúrs tengjast mörgum öðrum málaflokkum og í samvinnu við önnur fagráðuneyti þarf m.a. að skoða samhengi nýrra heildarlaga við höfundalög, hönnunarlög og lög um mannvirki. Að undangengnu hefðbundnu mati á þörf fyrir lagasetningu, og greiningu á lagaumhverfi annars staðar á Norðurlöndum, er stefnan að ráðist verði í gerð frumvarps til heildarlaga um málefni hönnunar og arkitektúrs. Virkt samráð verði haft við haghafa meðan á smíði frumvarpsins stendur um það hvernig ná megi þeim markmiðum sem stefnt er að. Frumvarpið fari síðan í opið samráðsferli og verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2025.

5. Aukning hlutar hönnuða í úthlutun listamannalauna.
    Markmið listamannalauna er að efla listsköpun í landinu með því að veita sjálfstætt starfandi listamönnum, sem starfa við tilgreindar listgreinar, styrki í formi mánaðarlauna til ákveðins fjölda mánaða í senn. Launasjóður hönnuða var settur á fót með lögum um listamannalaun, nr. 57/2009, og er yngstur þeirra sex starfslaunasjóða sem listamannalaun eru veitt úr, ásamt sjóðum sviðslistafólks og tónlistarflytjenda. Þá eru fæst mánaðarlaun veitt árlega úr launasjóði hönnuða, eða 50, samkvæmt lögunum. Árangurshlutfall umsækjenda í sjóðinn hefur verið á bilinu 8–14% árin 2018–2022, sem er lágt í samanburði við aðra sjóði. Endurskoðun laga um listamannalaun stendur yfir og ráðgert er að fjölga í skrefum þeim mannmánuðum sem til úthlutunar eru úr 50 í 100 á gildistíma aðgerðaáætlunarinnar. Aðgerðin styður Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 8 um að stuðlað skuli að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla.

6. Samfélagsleg nýting hönnunardrifinnar nýsköpunar.
    Hagnýting hönnunar er vaxandi þáttur í þróun og nýsköpun og erlendar rannsóknir sýna að fyrirtæki og stofnanir sem fjárfesta í hönnun standa fyrir öflugri nýsköpun, skapa meiri tekjur og vaxa hraðar en þau sem gera það ekki. Áhersla á virkjun hönnunar á sem flestum sviðum stefnumótunar og rekstrar hefur þannig áhrif á samkeppnishæfni. Sum nágrannalönd okkar hafa náð eftirtektarverðum árangri með hönnunardrifinni nýsköpun innan sinnar stjórnsýslu. Þar hafa opinberir aðilar verið leiðandi í að ráða hönnuði og virkja hönnunarhugsun við úrlausn verkefna og flóknar kerfisbreytingar. Í Noregi hafa til að mynda verið innleiddar leiðir til þess að auka notendamiðaða nálgun á hugmyndastigi verkefna til þess að hraða nýsköpunarvirkni og auka árangur og skilvirkni þeirra með aðferðafræði hönnunar. Margt má læra af þeim vinnubrögðum, hvort sem verkefnin tengjast hönnunarhugsun í samskiptum og þjónustu, stafrænum ferlum eða byggðu umhverfi. Unnið er að því að Ísland verði meðal allra fremstu þjóða á sviði stafrænnar tækni og þjónustu og að því að efla nýsköpun sem víðast í opinberri stjórnsýslu. Markmið stjórnvalda er að einfalda stjórnsýslu, bæta þjónustu við almenning og auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingum með nýtingu stafrænna lausna, m.a. með verkefninu Stafrænt Ísland.
    Markmið aðgerðarinnar er að sýna fram á hagnýti og árangur af hönnunardrifinni nýsköpun við úrlausn flókinna áskoranna. Val á tilraunaverkefnum sem unnið yrði að tæki mið af umfangi og eðli árskoranna, í samhengi við velsældaráherslur stjórnvalda. Aðgerðin styður Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 17.17 um hvatningu til skilvirkra samstarfsverkefna hjá hinu opinbera og milli opinbera geirans og einkaaðila og markmið 9.4 um að eigi síðar en árið 2030 verði innviðir styrktir og atvinnugreinar endurskipulagðar til að gera þær sjálfbærar, nýting auðlinda verði skilvirkari og í auknum mæli innleiði hvert og eitt land tækni og umhverfisvæna verkferla eftir getu.

7. Aukið vægi hönnunar í útboðum og samkeppnum.
    Tækifæri felast í því að efla þátt hönnunar og arkitektúrs í samkeppnum, opinberum útboðum og innkaupum með það að markmiði að auka gæði, verðmætasköpun og endingu. Nýta má ferla betur til þess að ná árangri fyrir alla hagaðila. Tillögur að þróun og breytingum snúast m.a. um nýtingu fagþekkingar þeirra sem starfa í hönnun og arkitektúr, einföldun og samræmingu verklags, aukna sanngirni, skilvirkni og traust, að bæta fleiri sjónarmiðum inn í verklýsingar og jafna hagsmuni kaupenda og seljenda. Með því má einnig auka áherslu á lífsgæði, umhverfisþætti og inngildingu. Samstarf um þetta verkefni er þegar hafið á milli Ríkiskaupa og Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs en það þarf að efla og fleiri þurfa að koma að því, svo sem Ríkiseignir, Framkvæmdasýslan, fjármála- og efnahagsráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, Reykjavíkurborg, Samtök íslenskra sveitarfélaga og Samtök iðnaðarins. Aðgerðin styður framkvæmd undirmarkmiðs 12.7 í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um að stuðlað verði að sjálfbæru verklagi við opinber innkaup í samræmi við innlenda stefnu og forgangsröðun.

8. Heildstæð stefnumótun í mannvirkjagerð.
    Með hliðsjón af breytingu á skipan ráðuneyta í Stjórnarráðinu og mikilvægis mannvirkja- og skipulagsmála fyrir loftslagsmarkmið stjórnvalda er brýnt að vinna að heildrænni stefnumótun um hönnun innviða og mannvirkja með aukna sjálfbærni, gæði og bætta lýðheilsu að leiðarljósi. Slík stefnumótun kallar á að virkja breiðan hóp hagsmunaaðila úr stjórnkerfi og atvinnulífi. Samhliða verði hugað að virkri samþættingu áherslna í hönnunarstefnu við aðra stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda. Aðgerðin styður Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 9.4 um að eigi síðar en 2030 verði innviðir styrktir og atvinnugreinar endurskipulagðar til að gera þær sjálfbærar, nýting auðlinda verði skilvirkari og í auknum mæli innleiði hvert og eitt land tækni og umhverfisvæna verkferla eftir getu, markmið 11 um að gera borgir og íbúðasvæði öllum mönnum auðnotuð, örugg, viðnámsþolin og sjálfbær og undirmarkmið 11.a um að stutt verði við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða.

9. Miðlægur rannsóknavettvangur fyrir innviði.
    Allt að 80% umhverfisáhrifa vara og bygginga eru ákvörðuð í hönnunarferli þeirra og talið er að um 30–40% af kolefnislosun á heimsvísu megi rekja til mannvirkjagerðar. Brýnt er að efla rannsóknir á umhverfisáhrifum mannvirkjageirans hér á landi. Askur – mannvirkjarannsóknasjóður var settur á laggirnar árið 2021 en hann veitir styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar. Sem stendur snúa áherslur sjóðsins einkum að áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Til að byggja megi upp öflugt þverfaglegt rannsóknarumhverfi fyrir fagfólk í arkitektúr, hönnunar- og byggingagreinum þarf að meta þörf fyrir auknar rannsóknir og miðlun á sviðum húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmála með hliðsjón af húsnæðisstefnu, landsskipulagsstefnu og loftslagsmarkmiðum Íslands. Aðgerðin gerir ráð fyrir að mótaðar verði tillögur um framtíðarskipan bygginga- og innviðarannsókna hér á landi og sviðsmyndir kostnaðarmetnar. Aðgerðin styður framkvæmd Heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna nr. 9.1 og stuðlar að samþættingu þess við önnur heimsmarkmið; að þróaðir verði traustir innviðir, sjálfbærir og sveigjanlegir, hvort sem er staðbundnir eða yfir landamæri, í því skyni að styðja við efnahagsþróun og velmegun þar sem lögð verði áhersla á jafnt aðgengi á viðráðanlegu verði fyrir alla.

10. Aukið framboð náms og endurmenntunar í hönnunargreinum.
    Samfélagið tekur hröðum breytingum sem menntakerfið þarf að mæta hverju sinni. Menntun hönnuða og arkitekta felur í sér áherslu á rannsókn, rýni, sköpun og endurhugsun hefðbundinna aðferða, sem er í raun grunnur allrar hönnunar og öflug aðferð til nýsköpunar. STEM er hugtak yfir raungreinar: vísindi, tækni, verk- og stærðfræði. Nám í STEM-greinum þjálfar fólk til að beita vísindalegum og tæknilegum aðferðum við lausn vandamála. Til þess að hámarka ávinning af vísindalegri tækniþekkingu leggja samfélög í auknum mæli áherslu á fjölþættari menntun og aukna þverfaglega samvinnu. Því færist í vöxt að fremur sé vísað til STEAM-greina þar sem A-ið stendur fyrir hugvísindagreinar: sköpun, listgreinar og hönnun. Hönnuðir og arkitektar eru á hverju ári stærsti hópurinn sem útskrifast frá Listaháskóla Íslands og samhliða þróun hönnunargreina sem tæki til nýsköpunar og breytinga vex þörfin fyrir aukna breidd og fjölbreytileika náms í hönnun og arkitektúr. Þar skipta tengingar á milli faghópa miklu máli, að opna á samstarf milli háskóla og þróa nýjar námsbrautir svo að hægt sé að mæta flóknum úrlausnarefnum samtímans með markvissum hætti og nálgun sem tekur jafnt tillit til hagrænna og umhverfis- og samfélagslegra þátta. Huga þarf að ólíkum námsstigum og fjölga tækifærum nemenda til að búa sig undir háskólanám. Einnig má skapa aukin tækifæri til endurmenntunar fyrir fólk úr þessum fögum en ekki síður einstaklinga úr öðrum greinum sem vilja bæta þekkingu sína á þessum sviðum. Til þess þarf að efla samtal og samvinnu á milli menntastofnana, og við atvinnulífið, um þróun menntunar í hönnunargreinum. Aðgerðin styður Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4.4 og stuðlar að samþættingu þess við önnur heimsmarkmið; eigi síðar en árið 2030 hafi ungmennum og fullorðnum með hagnýta kunnáttu fjölgað umtalsvert, þar á meðal á sviði tækni- og starfsmenntunar, til þess að geta gegnt viðeigandi störfum, fengið mannsæmandi vinnu og stundað frumkvöðlastarfsemi.

11. Verndun, miðlun og rannsóknir á menningararfi íslensks arkitektúrs.
    Tryggja þarf verndun og viðhald hins manngerða umhverfis til samræmis við menningarlegt og sjónrænt gildi þess. Hið manngerða umhverfi varpar ljósi á samspil tíðaranda, hugmyndafræði og efnahags á efnisval, húsagerð og skipulag. Nauðsynlegt er að búa menningararfi íslenskrar byggingalistar betri umgjörð þar sem horft er til varðveislu, rannsókna og miðlunar en fyrsta skref í því er að gera faglega þarfagreiningu og forgangsraða verkefnum út frá stefnu um menningararf og lögum um menningarminjar. Aðgerðin styður Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 11.4 um sókn til verndar náttúru- og menningararfleifð heimsins, og stuðlar að samþættingu þess við önnur heimsmarkmið.

12. Fræðsla um höfundarétt og hönnunarvernd.
    Hugverk eru afrakstur frumlegrar hugsunar sem búið er að útfæra og koma í sýnilegt og skilgreint form. Þau eru einn mikilvægasti drifkraftur atvinnuþróunar og hagrænnar velsældar samfélaga og skiptir verndun slíkra réttinda lykilmáli fyrir samkeppnishæfni og verðmætasköpun. Til hugverkaréttinda teljast m.a. höfundaréttur, hönnunarvernd og einkaleyfi vegna tæknilegra uppfinninga. Starfsumhverfi hönnunargreina tekur örum breytingum og því er brýnt að auka fræðslu og meðvitund um höfundarétt og hönnunarvernd, bæði meðal almennings og fagstéttanna sjálfra. Í slíkri fræðslu þarf að taka mið af sérstöðu þeirra sem starfa að sjónlistum, m.a. hönnun og arkitektúr, og mikilvægi gagnsærrar samningsgerðar.

13. Safnafræðsla í Hönnunarsafni Íslands.
    Sköpun er einn grunnþátta menntunar samkvæmt aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla og fram kemur í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2021–2030 að lögð skuli áhersla á sköpun í öllu skólastarfi til að stuðla að persónulegum þroska, frumkvæði og nýsköpun (þskj. 310. 278. mál 151. löggjafarþings). Forsenda þess að virkja og viðhalda sköpunarkrafti og -kjarki nemenda sé að þeim sé búið námsumhverfi þar sem hvatt er til frumkvæðis, sjálfstæðis og skapandi hugsunar á öllum sviðum. Hönnunarsafn Íslands býr yfir aðstöðu til þess að taka á móti hópum í vinnusmiðjur þar sem þátttakendur fræðast um safnið og söguna, og geta síðan beitt þekkingu sinni til nýsköpunar. Stefnt er að því að fjölbreyttar miðlunarleiðir verði nýttar til að veita nemendahópum utan höfuðborgarsvæðisins aðgang að fræðslunni. Markmið aðgerðarinnar er að auka fræðslu og miðlun til grunnskólanemenda á aldrinum 10–14 ára um mikilvægi áherslu á sköpun, verkþekkingu, menningararf og framtíðarmöguleika íslenskrar hönnunar og arkitektúrs.

14. Þátttaka í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr.
    Feneyjatvíæringurinn í arkitektúr er haldinn annað hvert ár, á móti tvíæringnum í myndlist. Hann byggist á sýningum frá þjóðum heims í sérstökum þjóðarskálum annars vegar og sjálfstæðri sýningu undir stjórn sýningarstjóra hins vegar. Tvíæringurinn gegnir mikilvægu hlutverki við að þróa, móta og dýpka umræðu um arkitektúr um heim allan. Þar koma saman aðilar sem vinna á vettvangi arkitektúrs og þróun manngerðs umhverfis, til að mynda fulltrúar ríkja, sveitarfélaga, arkitektar og hönnuðir, sérfræðingar á sviði byggingartækni, framleiðendur byggingarefna, fjárfestar og þróunaraðilar bygginga. Stjórnendur Feneyjatvíæringsins í arkitektúr ákveða þema fyrir hvern tvíæring í takti við tíðaranda. Lögð er áhersla á viðfangsefni sem byggjast á fjölbreyttum og vel ígrunduðum rannsóknum sem snerta mótun hins manngerða umhverfis. Þær eiga það sameiginlegt að endurspegla áskoranir sem við stöndum öll frami fyrir, hlutverk þjóða heims gagnvart þeim áskorunum og leiðir arkitektúrs til að takast á við þær.
    Þátttaka í tvíæringnum fellur vel að áherslum ríkisstjórnar í málefnum skapandi greina og kynningu á þeim á alþjóðavettvangi, og að áherslum stjórnvalda á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna loftslagsáhrifa arkitektúrs og byggingariðnaðar. Ísland tekur þátt í tvíæringnum í myndlist og talið er að hægt sé að ná fram samlegðaráhrifum og hagkvæmni t.d. með samnýtingu sýningarskála.
    Með þátttöku í tvíæringnum má vekja athygli á stöðu og gæðum íslensks arkitektúrs á alþjóðlegum vettvangi, tengjast alþjóðlegri umræðu og rannsóknum í arkitektúr og verða þess betur áskynja hverjir styrkleikar, veikleikar íslensks arkitektúrs eru. Þá stuðlar þátttaka að samstarfi og samtali þvert á mannvirkjageirann og tengir saman arkitekta, hönnuði, fjárfesta og framkvæmdaaðila sem og aðra þá aðila er vinna á sviði hins manngerða umhverfis.